top of page

Mánuður 60

Sippi

Hlíðarfjall 5. Október 2018

Því miður náðum við félagar ekki að skíða allir saman í þessum merkilega mánuði, mánuðinum sem að lokar fimmta árinu. Sigurgeir skíðaði í Hlíðarfjalli 5. október en Aron og Pétur í Bláfjöllum nokkrum dögum seinna. Hér fyrir neðan er stutt lýsing frá skíðaferð í Hlíðarfjalli.

Eins og áður hefur komið fram þá er ég, Sigurgeir (Sippi), fluttur af landinu í tæpt ár. Er búsettur í Edinborg í Skotlandi á meðan hún Jóhanna mín er í framhaldsnámi. Ég setti það strax sem markmið að láta það ekki stoppa skíðunina hjá okkur félögum og reyna að koma heim til Íslands í hverjum mánuði til þess að skíða. Til þess að spara mér flugkostnað lá beint við að koma yfir mánaðarmót, ég flaug til Íslands í lok september og fór beint í frábæra skíðaferð í Kerlingarfjöll eins og áður hefur verið sagt frá. Ég átti svo 5 daga lausa í október áður en ég fór aftur út. Á þessum tíma stefndi ég á að skíða í bland við vinnu sem ég þurfti að sinna. Það vildi hinsvegar svo til eins og oft áður á þessum tíma árs, að veðrið ætlaði ekki að vera með mér í liði. Það var mikið hvassvirði þessa daga en það jákvæða var að það snjóaði eitthvað með því. Ég fór til Akureyrar til að hitta fjölskyldu og vini og ætlaði mér að skjótast í Hlíðarfjall og taka eina ferð í suðurskálinni, þar er oftast snjór allt árið. Það var svo ekki fyrr en á síðasta lausa degi að veðrið gaf tækifæri á að komast á skíði. Ég hafði takmarkaðann tíma til að skíða vegna þess að ég þurfti að keyra til Reykjavíkur og vera mættur á fund þar seinnipartinn, ég ákvað því að ganga eftir klukkunni, þ.e. að þegar að klukkan sló 10 myndi ég taka skinnin undan og skíða niður.

Það var búinn að safnast merkilega mikill snjór í gilin í fjallinu, en það var reyndar ekki mikill snjór á milli þeirra. Það gekk hægar en vanalega að ganga upp, snjórinn var það mjúkur að ég sökk talsvert í hann þrátt fyrir að vera á skíðunum. Ég ákvað að taka stefnuna upp í suðurbakka frekar en að fara í suður-skálinu, það var auðveldara fyrir mig að þræða snjóinn þangað. Þegar að klukkan sló 10 var ég kominn upp í það sem oft er kallað S-ið í suðurbakkanum. Þar smellti ég af mynd og tók undan skinnin.

Ég renndi mér úr S-inu og suður í dalinn, þar er skemmtilega brött brekka sem að vísu er ansi grítt. Það sem kom mér ótrúlega á óvart var að þarna var í fyrsta lagi nægur snjór til að skíða og svo var þetta alveg ótrúlega góður og mjúkur snjór. Hann var það góður að ég þurfti að stoppa eftir tvær beygjur og ná áttum, pota stöfunum í snjóinn og leggja mikið á mig til þess að trúa því að ég hefði dottið svona svakalega í lukkupottinn. Ég skíðaði svo alla leið niður að bíl, mögulega ein lengsta og besta ferð sem ég hef náð á þessum tíma árs. Svona endaði frábær skíðaferð á Íslandi og er ég ansi spenntur að koma aftur heim til að skíða í nóvember.


Nýlegar færslur
Greinasafn
bottom of page