top of page

Mánuður 58

Snæfellsjökull 18. ágúst 2018

Eftir nokkuð stuttar skíðaferðir undanfarna mánuði langaði okkur í langar brekkur. Danni Magg félagi okkar hafði verið að þvælast á Snæfellsjökli 2 vikum áður og lét vel af aðstæðum, við tókum hann á orðinu og þar sem spáin var ansi góð var ákveðið að nú skildi komast upp á topp á Snæfellsjökli.

Við lögum af stað snemma um morguninn vestur á Snæfellsnes. Ég (Aron), Sippi, Pétur og Óðinn. Það var ekki búið að opna bakarí í bænum þannig að morgunmaturinn var tekinn í Borgarnesi.

Veðrið var frábært, 5-6 gráður, bjart og smá gola. Þegar við keyrðum út Snæfellsnesið blasti jökullinn við, ekki ský á himni og allt eins og best verður á kosið. Við höfum reynt við Snæfellsjökul í nokkur skipti áður, en ekki náð á toppinn útaf sprungum, rigningar og skorts á skyggni. Nú hlaut þetta að smella! Við lögðum bílnum á jökulhálsinum þar sem troðara ferðirnar fara af stað. Það voru einhverjir lagðir af stað gangandi upp og ákváðum við að ganga bara í förunum eftir troðarann til að þurfa ekki að hafa stórar áhyggjur af sprungum.

Það kom okkur skemmtilega á óvart að jökullinn var ósprunginn á þessu svæði nema ein stór sprunga rétt undir toppnum, ekkert sem var til vandræða. Færið var flott, vorfæri með smá skel efst, sólin átti eftir að baka þetta fyrir okkur fyrir niðurferðina.

Við toppuðum bæði Norðurþúfu og Miðþúfu til að geta tikkað í tvö box í viðbót á 100 hæstu listanum í leiðinni. Útsýnið var frábært og eyddum við smá tíma í að rökræða hvort við sæum virkilega yfir á Drangjökul, það reyndist víst rétt…

Á leiðinni niður mættum við tveimur stórum göngu hópum á uppleið. Ég er nokkuð viss um að þeir hafi öfundað okkur af því að vera með skíðin með, enda færið eins og á flottum vordegi!

4 klst labb með nestis og útsýnispásum, 5 mínútna niðurleið með vott af sviða í lærunum.

Deginum var svo slúttað í heita og kalda pottinum í sundlauginni á Ólafsvík, allir sáttir með daginn og mánuður 58 í röð kláraður.


Nýlegar færslur
Greinasafn
bottom of page