top of page

Mánuður 61

Ég, Sigurgeir, kom til landsins kvöldið 27. nóvember, rétt mátulega til þess að ná nóvemberskíðun. Þar sem að þessir síðustu dagar nóvember voru virkir dagar var löngu ljóst að Pétur og Aron kæmust ekki með mér í þessa skíðaferð. Það var ansi lítill snjór á suðurlandinu og ekki um margar brekkur að velja til að skíða í, sem var ansi gremjulegt því á sama tíma var snjódýptin á Akureyri komin yfir 100 cm. Mér tókst að plata hana Kötu vinkonu mína til að skreppa með mér í bíltúr á Skjaldbreið, en þar höfðu Aron og Pétur verið laugardaginn 24. nóvember. Þar fengu þeir ágætan snjó á köflum, en ekki var hægt að komast alveg upp á topp vegna hálku og klaka. Það sem að kom í ljós í þeirra ferð var að Aron á framtíðina fyrir sér í fjallaskíðaskotfimi, ef að sú íþrótt verður einn daginn sett af stað, en hann náði tveimur rjúpum á upp leiðinni. Þar sem að þetta var síðasta rjúpnaveiðihelgin var ekki annað hægt en að hafa haglabyssuna með í för. Það var búið að vera aftaka veður síðustu 2 daga áður en við Kata fórum, það var mjög greinilegt þegar að komið var á línuveginn sem liggur austur að Skjaldbreið. Það voru stórar sandöldur yfir veginn á mörgum stöðum og á nokkrum stöðum var vegurinn nánast horfinn í sand. Ástandið var svo ekki mikið betra þegar að komið var að Skjaldbreið, þar var mjög takmarkaður snjór og hann var svo sandborinn að það var lítið sem ekkert rennsli í honum. Ég kom sem betur fer við öllu búinn og var með gamalt par af skíðum sem ég fórnaði í verkefnið, skíðin hafa oft þurft að þola illa meðferð á grjóti og lélegum snjó en þarna dró ég mörkin.

Snjórinn var mjög sundurslitinn í brekkunum og því ekki um mjög langa eða spennandi brekku að ræða, okkur tókst samt að finna c.a 300 metra langa ræmu óslitna.

Því miður var þetta með verri ferðum hvað skíðun varðar en ferðalagið sjálft var mjög gott eins og oftast hefur verið. Þetta er jú allt spurning um að hafa gaman og njóta þess sem landið bíður upp á hverju sinni.


Nýlegar færslur
Greinasafn
bottom of page