top of page

Mánuður 59

Snækollur 30. september 2018

Stefnan var tekin á Kerlingarfjöll síðustu helgina í september, ekki í fyrsta skiptið og sjálfsagt ekki það síðasta heldur. Sökum þess að einn okkar, hann Sippi, er fluttur tímabundið erlendis hafði þessi ferð, ólíkt mörgum öðrum ferðum okkar, verið plönuð með mánaðar fyrirvara. Það var því með ólíkindum að við skyldum hitta á jafn flotta helgi og raun bar vitni.

Við höfðum græjað gistingu í Kerlingarfjöllum þetta skiptið til þess að minnka stressið og hafa aukið svigrúm fyrir skíðun, enda mánuðurinn hér um bil á enda og við ennþá órenndir. Við, fjallageiturnar þrjár og félagi Óðinn, keyrðum úr bænum uppúr hádegi á laugardag eftir að hafa birgt okkur upp af nauðsynjum, s.s. íslenskri kjötsúpu, Aquarius, þurrkuðu mangó, skeinipappír og gaskút fyrir kyndinguna. Vissara að hafa vaðið fyrir neðan sig þar sem öll aðstaða uppfrá var lokuð þessa helgi.

Ferðin og færðin uppeftir voru eins og best verður á kosið framan af, en það var þó nokkur barningur í gegnum snjóskafla á veginum síðustu kílómetrana. Í Kerlingarfjöllum á laugardagskvöldið var snjóbylur og frost um 12 gráður, útlitið ekkert sérstakt, en tilhlökkun í mannskapnum að komast inn í hús og bíða af sér veðrið. Húsið reyndist fínasta skjól fyrir bylnum en inni voru engu að síður sömu -12 gráðurnar og úti. Það var því lítið annað í stöðunni en að kveikja á kyndingunni, fíra undir kjötsúpunni og kúra sig saman í sófanum. Þegar menn skriðu svo loks ofan í svefnpokana um kvöldið hafði kyndingin gert sitt og hitinn í húsinu kominn í góðar 10 gráður, sem reyndist nóg til morguns.

Sunnudagsmorguninn kom svo eins og blaut tuska í andlitið á okkur. Ekki skítug, köld tuska sem er sveiflað af alefli, heldur volgur þvottapoki sem býður góðan daginn og nuddar í burtu stírurnar. Úti bærðist ekki hár á höfði, það sást ekki ský á himni og fokið nýsnævi þakti jörðu. Það þurfti ekki að ræða næstu skref, helltum uppá kaffi, tróðum í okkur samlokum, pökkuðum í bakpokana og hentum dótinu í bílinn. Við komumst hér um bil hálfa leið frá skálunum að hverasvæðinu á bílnum, þar sem við settum skinnin undir og tókum stefnuna á tindana. Að þessu sinni var ákveðið að ganga á Snækoll (1477m), sem er hæsti tindurinn í Kerlingarfjöllum, til að geta hakað við nýjan tind á 100 hæstu listanum.

Færið kom skemmtilega á óvart miðað við það sem á undan hafði gengið og veðrið eins og best verður á kosið. Við gengum upp á Snækoll í glampandi sól, logni og -10 gráðum, með stöku mangó- og ljósmyndastoppi enda útsýnið sjaldan betra. Hægt var að skíða af toppnum og alla leið í bílinn með einu smá rölti til að þvera veginn rétt undir Vollstrít. Sælir, sólaðir og stútfullir af súrefni fórum við svo í að ganga frá húsinu og koma okkur í bæinn. Að ná heim áður en sundlaugarnar lokuðu var möst.

Mánuður 59 í röð var kominn í hús og tindarnir detta inn hver á eftir öðrum.


Nýlegar færslur
Greinasafn
bottom of page