top of page

Mánuður 56

18. Júní 2018

Bláfell á Kili

Vegna ferðalaga og sumarfría á mismunandi stöðum hér og þar um heiminn þá var 18. Júní eini dagur mánaðarins sem allir komust saman í skíðaferð.

Það var ansi blautt í borginni þegar við rúlluðum af stað en það virtist vera örlítið bjartara yfir austan við fjall. Hugmyndin í upphafi var að reyna að finna snjó ofanvið Laugarvatn, jafnvel í hlíðum Hlöðufells, Högnhöfða eða þar í kring.

Vegurinn upp að Hlöðufelli var ennþá lokaður vegna aurbleytu og stór skafl í miklum hliðarhalla lokaði veginum að Högnhöfða.

Eftir smá rúnt um Haukadalinn í grenjandi rigningu var ákveðið að fara á Bláfell, fjall sem við höfum farið í ansi oft, og alltaf fundið eitthvað nýtt og skemmtilegt.

Um leið og við komum að Bláfelli þá reif hann af sér og við græjuðum okkur og gengum af stað. Það var mun meiri snjór en við reiknuðum með og færið alveg ágætt bara, vel blautt og hálfgerður grautur.

Þegar við nálguðumst toppinn kom í ljós að líklega yrði þetta en einn túrinn þar sem ekki yrði toppað. Risastór hengja króaði toppinn af og lokaði öllum mögulegum leiðum þarna upp. Við ákváðum þó að láta aðeins reyna á þetta og klifruðum ofar. Skinnin rennandi blaut gripu ekkert alltaf vel, og endaði ég (Aron) á því að missa grip og renna á rassgatinu niður.

Sippi og Pétur reyndu við aðra leið og komust upp að hengju, en aftanvið hana blasti við stærðar sprunga og því var toppur úr sögunni.

Um leið og ákveðið var að snúa við skall á svarta þoka og skyggni var ekki mikið meira en 10 metrar. Það var þó léttara yfir aðeins neðar og úr varð fínasta skíðun.

Við enduðum svo daginn með hinum túristunum á Geysi.

Mánuður 56, check.


Nýlegar færslur
Greinasafn
bottom of page