top of page

Mánuður 57

Bláhnúkur 22. júlí 2018

Ég(Sippi) hafði verið í Landmannalaugum með fjölskyldu og vinum á laugardegi í göngu og hjólaferð. Sá að það var ansi flottur skafl í Bláhnúki sem blasti við frá bílaplaninu við Landmannalaugar. Eftir að hafa ráðfært mig við landvörð á svæðinu hafði ég samband við Aron og Pétur þar sem ég sagði þeim að verkefni mánaðarins væri fundið. Þeir komu síðan keyrandi frá Reykjavík daginn eftir og sóttu mig, en ég hafði verið í útilegu í Sandárbotnum í Þjórsárdal (auðvitað með allann skíðabúnað með...). Það voru ansi margir í Landmannalaugum þennann sunnudag, reyndar eins og flesta aðra daga. Það var því ekki auðvelt að vera laumulegir með skíðabúnað á svæðinu, en við vildum ekki fá of mikla athygli áður en við vissum að það væri í raun og veru hægt að skíða þennan skafl. Við gegnum af stað með skíðin og skóna á bakinu upp hefðbundnu gönguleiðina á Blánúk. Þegar við vorum komnir c.a hálfa leið upp hnúkinn sáum við að skaflinn var ansi skítugur og það sem verra var að hann var mjög gríttur. Hann náði nánast alla leið frá toppi og niður. Þegar við höfðum klætt okkur í skóna á toppnum fikruðum við okkur niður á skaflinn, en við eyddum góðum tíma í að hylja fótsporin því jarðvegurinn var ansi mjúkur. Skaflinn var langur, brattur og skemmtilegur. Pétur fór fyrstur og hikaði ekki við að skíða í gegnum malar hrúgurnar sem voru neðarlega í skaflinum. Aron var ekki eins spenntur að fara í gegn á fínu carbon skíðunum en gat ekki verið minni maður þegar að ég var kominn inn í grjótið. Næstu daga á eftir hefur það ekki farið fram hjá neinum sem kom í Landmannalaugar að einhverjir hafi verið að skíða í Bláknúki. Förin eftir okkur sáust það vel í skítugum snjónum að við vorum næstum því með samviskubit. Allt í allt var þetta frábær ferð í skemmtilegu og flottu landslagi.


Nýlegar færslur
Greinasafn
bottom of page